8.4.08

F. 08.09.1960. D. 05.04.2008.

Elsku mamma mín lést aðfaranótt 5. apríl sl. eftir áralanga baráttu við krabbamein. Ég sakna hennar óheyrilega mikið, en ég er svo tóm og dofin að stundum finn ég ekki neitt, finn ekki söknuð, finn ekki depurð, finn ekki gleði, finn ekki sorg, finn ekki hungur, finn ekki þreytu, finn ekki neitt... bara tóm og dofin. En svo kemur bylgjan, ég finn allt, finn óyfirstíganlega sorg, finn endalausa depurð og söknuðurinn eftir mömmu minni verður yfirþyrmandi, þó finn ég ekki gleði. Hana hef ég ekki fundið núna í nokkra daga, finn jú fyrir votti af gleði þegar ég hugsa til litla barnsins hans Leifs bróðurs og Lilju kærustunnar hanns, ófædds lítils frænda míns, en svo hugsa ég ... "sem aldrei á eftir að kynnast ömmu sinni"... og verð óendanlega döpur aftur. Hvernig yfirstígur maður sorgina sem fylgir því að missa ástvin? Er það nokkurn tíman hægt?
Við mamma áttum ekki skap saman þegar ég var unglingur og sé ég óheyrilega mikið eftir því að hafa ekki verið hin fullkomna dóttir fyrir mömmu mína. En síðustu árin kynntumst við alveg upp á nýtt og var hún mín allra besta vinkona síðustu ár. Ég hringdi í hana lágmark einu sinni á dag og ef ég var ekki búin að hringja í hana þann daginn hringdi hún í mig. Ég gat leitað til mömmu með allt, bókstaflega allt. Í hvern á ég að hringja núna á hverjum degi og leita ráða þegar ég veit ekki hvernig ég á að elda hitt og þetta, þegar Kristófer er veikur, þegar ég er að versla mér föt eða bara til að kjafta. Af öllum þeim sem ég hef nokkurn tíman þekkt fannst mér best að hringja í mömmu til að bara kjafta... hafði kannski nákvæmlega ekki neitt merkilegt að segja þegar ég hringdi... bara kjafta um allt milli himins og jarðar. Í hvern á ég að hringja þegar Kristófer segir eitthvað ótrúlega fyndið, í hvern á ég að hringja þegar Kristófer gerir eitthvað ótrúlega sætt... ég á aldrei eftir að heyra röddina hennar mömmu aftur. Ég veit að ég þekki fullt af fólki sem ég get hringt í til að kjafta en það fólk er ekki mamma.

Einhver sagði einhverntíman að tíminn læknaði öll sár... ég held að það sé ekki satt. Hann kannski setur plástur á þau, en plásturinn læknar ekki neitt... hann hylur sárið, ver það... en sárið hverfur ekki fyrir tilstuðlan plástursins. Ég held að alltaf eigi eitthvað eftir að koma upp sem ýfir sárin, rífur plásturinn af og það er sárt... það vita allir sem einhvern tíman hafa tekið af sér plástur... það er sárt.

Kristófer sonur minn, kvaddi ömmu sína á mjög fallegan hátt, hann sendi henni fingurkoss þar sem hún lá í rúmi sínu nokkrum dögum fyrir andlát sitt. Nú er sá háttur hafður á að við sendum ömmu alltaf fingurkoss áður en hann fer að sofa... sendir hann upp til ömmu þar sem hún er að leika sér hjá guði eins og hann komst að orði um daginn.

Elsku mamma, fingurkoss til þín.